10.10.2010 | 13:47
Þjóðvakablað Jóhönnu Sigurðardóttur 1997
Ríkisstjórnin opinberaði sinn innri mann rétt fyrir jól við afgreiðslu tekjufrumvarpa fjárlaga. Þá ákvað hún að hækka ekki barnabætur, barnabótaauka, sjómannaafslátt, vaxtabætur og persónuafslátt í samræmi við verðbólgu einsog alltaf er gert í árslok, segir Ágúst Einarsson Þingflokki jafnaðarmanna í samtali við Þjóðvakablaðið.
- Ástæða þess að þessir liðir eiga að hækka er sú að vitaskuld er dýrara að lifa frá ári til árs, a.m.k. sem nemur verðbólgunni. Áður voru þessar hækkanir bundnar launabreytingum innanársins en núna er þetta ákveðið með lögum einu sinni á ári. - Nú ákvað ríkisstjórnin hins vegar að láta þessa liði vera óbreytta og það hefur aldrei verið gert áður. Ástæðan er sú að þeir eru að spara sér með þessu yfir 800 milljónir á næsta ári. Síðan ætla þeir að lækka jaðarskatta og verja til þess þessum 800 milljónum. Þetta er eitthvað það ómerkilegasta sem gerst hefur í pólitík í mörg ár. Fólk fær sömu barnabætur árið 1997 og það fékk 1996, þótt framfærslukostnaður barns hækki milli ára um nokkur prósent. Sama er látið gilda um aðrar greiðslur úr kerfinu, þ.e. barnabótaauka og vaxtabætur. Sjómannaafsláttur er hafður óbreyttur svo og persónuafsláttur sem er ekkert annað en bein skattahækkun miðað við fyrri útfærslur.- Síðan ætlar ríkisstjórnin að koma sem frelsandi engill eftir áramót og höggva á hnútinn í kjaraviðræðunum og segja: Nú lækkum við skatta og höfum þar með uppfyllt okkar kosningaloforð". Þeir láta þess hins vegar ekki getið að fólkið er sjálft búið að greiða fyrir þessar væntanlegu skattalækkanir. Ríkisstjórnin sagði ekki frá því í fjárlagafrumvarpinu að hún hygðist fara svona aftan að fólki og skýrði hvergi frá þessu við umræðu eða í öðrum frumvörpum. Þetta er lúalegt og það er mest undrunarefni að fólk skuli ekki gera uppreisn gegn svona háttarlagi. Svipað gegnir um bætur úr almannatryggingakerfinu, þ.e. ellilífeyri og örorkubætur o.fl. slíkt. Þær hækka á næsta ári aðeins um 2% en gera má ráð fyrir að laun hækki um meira en 2% á næsta ári. Þá situr þetta fólk eftir með sárt ennið, gamalt fólk og öryrkjar. Hin harðneskjulega stefna ríkisstjórnarinnar sem leggur peningalegt mat á allt umhverfi sitt er sífellt að koma betur og betur í ljós. Stjórnin er fjandsamleg fólki og skirrist ekki við að beita ómerkilegum blekkingum til að ná fram markmiðum sínum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.